Maí 2024
Halla Hrund fór yfir ferilinn, fjölskylduhagina, hlutverk sitt sem orkumálastjóri og sýn sína á forsetaembættið í ítarlegu viðtali við Heimildina. Hún fór meðal annars yfir það hvernig æskuárin í sveitinni kenndu henni að láta verkin tala, hvernig áhuginn á náttúrunni og samfélaginu leiddu hana út í nám í stjórnmálafræði og til starfa í þremur mismunandi heimsálfum, og margt, margt fleira.
Halla leggur í viðtalinu áherslu á að Íslendingar þurfi að passa vel upp á auðlindir sínar, og að í þeim málaflokki þurfi ætíð að hafa hagsmuni almennings í hávegum. Það er mikilvægt að við skilum landinu af okkur í betra horfi fyrir framtíðarkynslóðir, og til þess er mikilvægt að við tökumst á við yfirvofandi tækniþróun, samfélagsbreytingar og loftslagsáskoranir af samheldni.
„Okkur má ekki standa á sama um framtíðina heldur standa saman að framtíðinni. Ég held að það sé leiðin sem muni nýtast okkur best.“