employee-journey-screen

Fréttabréf 29. maí 2024

29/5/2024

Kæra stuðningsfólk.

Núna þegar aðeins þrír dagar eru til kosninga er mikilvægt að við þéttum raðirnar og klárum þessa kosningabaráttu í sókn, með gleði, kraft og samvinnu að leiðarljósi.

Um síðustu helgi sýndum við í verki hverju er hægt að áorka með samtakamætti og þátttöku en mestallt upplag kosningaritsins er nú komið inn á heimili um land allt og aðeins örfá eintök eftir. Þetta er ótrúlegur árangur og við erum svo innilega þakklát fyrir alla hjálpina. Magnað hverju hægt er að áorka þegar allir leggjast á árarnar og vinna saman. Rafræna útgáfu og myndir frá dreifingunni má nálgast hér: hallahrund.is/kosningarit

Dagskrá næstu daga

Á kosningamiðstöðinni í Nóatúni 17 í Reykjavík verður líf og fjör dagana fram að kosningum. Öllum er velkomið að kíkja í kaffi og leggja okkur lið í úthringingum, sem munu fara fram alla daga fram að kosningum frá klukkan 17:00 og fram á kvöld.

Í dag verður viðburður fyrir ungt fólk á kosningamiðstöðinni í Nóatúni klukkan 18:00, þar sem Halla Hrund býður ungu fólki til samtals um allt sem á því brennur varðandi framtíðina og forsetaembættið. Þar taka þátt í umræðum þau Eyþór Máni, framkvæmdastjóri Hopp, Hálfdán Helgi úr hljómsveitinni Væb, Helga Sigrún, frumkvöðull og Jessý Jónsdóttir, vélaverkfræðingur, en einnig verður tekið við spurningum úr sal.

Endilega dreifið þessum viðburði og bjóðið unga fólkinu í kringum ykkur að mæta. facebook.com/events/972299727873306

Á fimmtudaginn verða tvennar kappræður. Pallborðið á Mbl.is er á dagskrá klukkan 16:00 og kappræður Stöðvar 2 klukkan 18:55. Loks verða kappræður á RÚV klukkan 19:40 á föstudagskvöldið.

Við munum að sjálfsögðu fylgjast með pallborðunum á skjá hér í kosningamiðstöðinni og hvetjum ykkur til að mæta og horfa með okkur.

Kosningakaffi um land allt

Á laugardaginn verðum við með kosningakaffi um land allt. Í Reykjavík verður kosningakaffi í kosningamiðstöðinni í Nóatúni 17 en einnig verður kosningakaffi víða um land þar sem stuðningsmenn Höllu Hrundar geta komið saman.

Ef þú getur lagt okkur lið við að skipuleggja kosningakaffi í þinni heimabyggð hafðu endilega samband með að svara þessum pósti eða fylla út þetta form: hallahrund.is/kosningakaffi-skraning

bkv.

Stuðningsfólk Höllu Hrundar